Eins og allir vita er Landsmót á næsta leiti og mun Sigvaldi mæta þangað með fjögur hross í braut. Í A-flokk mun hann mæta með Leiftur frá Búðardal. Leiftur er orðinn gamalreyndur keppnishestur en hefur sjaldan verið í eins góðu formi og nú. Við erum vongóð um að hann eigi eftir að standa sig vel en erum raunhæf og þorum alveg að segja að hann eigi ekki eftir að ógna þeim Spuna og Óm í toppsætunum, en hver veit?
Smyrill frá Hamraendum mætir í B-flokk. Smyrill er aftur á móti nýgræðingur í keppni og er að sækja sitt fyrsta Landsmót. Hann hefur aðeins kíkt á keppni það sem af er ári og er bara að bæta í þessa dagana og verður spennandi að sjá hvernig hann mun standa sig á "stóra" vellinum.
Ég er viss um að hún Sóldögg frá Skógskoti hugsi með sér; ,,Minn tími er kominn"! Því síðast þegar Sóldögg var á leiðinni á Landsmót endaði hún á hlið í vegkanntinum á leið sinni á Vindheimamela 2011. En nú er hún komin inn á Landsmót aftur og er með 9. besta tíma ársins í 100m skeiði eða 7.87 sek. og sinn næst besta tími hingað til. (Hún hvíslaði að mér að hún ætlaði að bæta þennan tíma svo um verði talað.)
Síðasta en alls ekki síðsta ber að nefna hana Völvu frá Hólum sem einfaldlega flaug inn á mót. Á kynbótasýningunni á Mið-Fossum náðu þau lágmörkunum í 5 vetra flokki hryssna og gott betur en það. Eftir yfirlitssýninguna stóð hún uppi sem efsta 5 vetra hryssa sýningarinnar með aðaleinkunn upp á 8.40 en það er einnig þriðja hæsta einkunn inn á Landsmót í þessum flokki. Hún hlaut 8.51 fyrir hæfileika, m.a. 9 fyrir fegurð í reið 8.5 fyrir tölt, brokk, skeið og vilja og 8 fyrir stökk og fet. Glæsilegur dómur hjá ungri meri en hún á alls ekki langt að sækja þetta. Föður hennar þekkja flestir en það er einmitt Sleipnisbikarshafinn þetta Landsmótið, hann Vilmundur frá Feti. Móðirina ættu menn að muna eftir frá Landsmóti 2011 þar sem hún stóð önnur í flokki 7. vetra og eldri með einkunnina 8.62, hún Þrift frá Hólum.
Eins mun glitta í kappann í sýningum ræktunarbúanna Árbæjarhjáleigu og Hofsstaða í Garðabæ en svo verður hann einnig í starfi reiðkennarans því líkt og LM 2012 fylgir hann hópi af krökkum í barna-, unglinga- og ungmennaflokki á Landsmót. Þetta eru krakkar úr Skugga, einn úr Faxa og annar úr Neista og hefur hann verið að hitta þau nú í aðdraganda að Landsmóti. Það er ávalt gaman að fylgjast með yngri flokkunum og sjá hvað krakkarnir mæta ákveðnir til leiks og eru ánægð með sinn árangur þó hann skili þeim ekki endilega topp sætinu.
Það stefnir í ansi gott Landsmót og verður án efa skemmtun frá því að fyrsta hross ríður í braut fram að mótsslitum. Glæsilegir hestar og knapar eru skráðir til leiks og vonandi munu þeir ungu og efnilegu ná í hælana á þeim eldri og reyndari. Bara mæta nógu snemma og sjá hana Öskju frá Höfstöðum ríða á vaðið klukkan 9:30 á sunnudeginum og tryggja sér þar með gott stæði í brekkunni fyrir vikuna. ;)
Sjáumst á Landsmóti!
Það stefnir í ansi gott Landsmót og verður án efa skemmtun frá því að fyrsta hross ríður í braut fram að mótsslitum. Glæsilegir hestar og knapar eru skráðir til leiks og vonandi munu þeir ungu og efnilegu ná í hælana á þeim eldri og reyndari. Bara mæta nógu snemma og sjá hana Öskju frá Höfstöðum ríða á vaðið klukkan 9:30 á sunnudeginum og tryggja sér þar með gott stæði í brekkunni fyrir vikuna. ;)
Sjáumst á Landsmóti!