Það voru margir sem gerðu sér glaðan dag og kíktu við á Staðarhúsum núna á laugardaginn og þáðu þar bæði veitingar og fróðleik. Það var gaman hvað margir sáu sér fært að koma og létu ekki leiðindar færð og veður á sig fá sem hafði hrjáð landan dagana þar á undan ef ekki vikur. Það var Linda Rún sem reið á vaðið með fróðleik kvöldsins en hún fjallaði um þær aðferðir, eða verkfæri eins og hún talaði um, sem hún notast við við tamningar á ungum hrossum og lagði áherslu á mikilvægi leiðtogahlutverksins í vinnu okkar með hestinum. Sigvaldi tók við og fjallaði um aðferðir til að auka mýkt og jafnvægi og fá hestinn til að vilja vinna með okkur, að það skili bæði árangri og skemmtilegri vinnu. Að því loknu gæddu gestir sér á gómsætri kjötsúpu og svelgdu þorstann þar til Guðmar Þór tók svo til máls. Hann var með afar fróðlegt innlegg þar sem hann fjallaði um hestamennskuna í víðu samhengi með sérlega skemmtilegu sjónarmiði. Eftir það var dagskránni hvergi nærri lokið því við tók skemmtileg stemning fram eftir kvöldi. Guðmar, Linda Rún og aðrir sem að þessu stóðu eiga hrós skilið fyrir hvernig að öllu var staðið og var virkilega gaman að fá að taka þátt í þessu með þeim. Nokkrum myndum var smellt af og má sjá þær hér. |