Hula sem er fædd 1992 var sýnd 5 vetra þá lítið tamin í einkunnina 7.94. Hula er með 1. verðlaun fyrir sköpulag og fyrir hæfileika er hún með 8.0 á línuna nema 6.5 fyrir brokk. Því miður var hún ekki sýnd aftur en hún átti mikið inni sem eflaust hefði skilað henni 1. verðlaunum. Það voru bræðurnir Sigvaldi og Óli sem fengu að njóta hennar í staðinn til útreiða og keppna. Sigvaldi hafði komið henni inn á landsmót 1998 en því miður gátu þau ekki mætt á mótið en gaman hefði verið að sjá hvernig þeim hefði til tekist. 7 vetra var Hulu fyrst haldið og hún hefur skilað 12 afkvæmum. Hryssan hefur gefið allhiðahross, yfirleitt með góðu skeiði. Þetta eru næm, viljug og vinnusöm hross með ágætum fótaburði. |
Dreki frá Skógskoti (2000) var undan Hrynjanda frá Hrepphólum. Dreki var mikill gæðingur og sjálfskipaður höfðingi hússins og þ.a.l. frúarhesturinn. Svandís, móðir Sigvalda, var farin að keppa á honum mikið og byrjuð að ná góðum árangri þegar Dreki fórst skyndilega úr hrossasótt. Mikil eftirsjá er af Dreka sem var algjör draumahestur og fyrsta afkvæmi Hulu. |
Sóldögg frá Skógskoti (2001) undan Róm frá Búðardal. Sóldögg hefur verið að ná góðum árangri í skeiðgreinum. Hún er mikill vekringur og á hún best einkunnina 7.33 í gæðingaskeiði og 7.87 sek. í 100m fljúgandi skeiði. Þessi tími kom henni fljúgandi inn á landsmót 2011 sem fór ekki betur en svo að á leiðinni þangað slasast hún verulega þegar kerra sem hún var í veltur utan vegar. Það var leiðinlegt að tímabilið var búið áður en það byrjaði þar sem árið áður hafði hún einnig verið úr leik sökum hestapestarinnar. Gleðin er sú að Sóldögg virðist ekki ætla kenna sér mein af þessari reynslu og er komin á fullt fjör og tilbúin í slaginn. 2002 og 2003 komu merarnar Kúnst undan Snerri frá Bæ og Snerpa undan Þjótanda frá Svignaskarði. Þær voru afbragðs reiðhryssur sem eru nú seldar. |
Þruma frá Skógskoti (2004) undan Þjótanda frá Svignaskarði. Þruma var sýnd 4 vetra af Bjarna Jónassyni í tæp 1. verðlaun og hlaut miða inn á landsmót 2008. Óli tekur við þjálfun hennar að því loknu og sýnir hana 6 vetra í 8.24 fyrir hæfileika og 8.09 í aðaleinkunn. Þrumu tókst einnig að útskrifa Sigvalda af reiðkennaradeildinni á Hólum á meðan aðrir hestar voru frá vegna pestarinnar 2010. Þruma er skemmtileg hryssa sem er komin í ræktun. Hún kastaði myndarlegu hestfolaldi snemma í sumar undan Gaum frá Auðsholtshjáleigu. Hún er nú fylfull við Hágangi frá Narfastöðum. |
Þrándur frá Skógskoti (2005) er undan Glampa frá Vatnsleysu. Hann lét ekki mikið fyrir sér fara framan af og en hefur verið að koma skemmtilega til. Hann er viljugur og einstaklega vinnusamur hestur. Gullbrá frá Skógskoti (2006) er undan landsmótsmeistaranum Geisla frá Sælukoti. Hún mun nú ekki feta í fótspor föður síns á keppnisvellinum en hefur mikla burði í að verða æðisleg reiðhryssa fyrir alla. Hún er viljug, mjúk og þjál sem fer vel með manninn. Hún er nú seld. |
Gló frá Skógskoti (2007) er undan skagfirska Glampanum. Gló er á 5. vetur, alhliðageng, stór og mjög falleg. Úti í stóði eru svo spennandi tryppi sem flest lofa góðu. Tromma frá Skógskoti (2009) - Undan Hróðri frá Refsstöðum Huldar frá Skógskoti (2010 - ógeltur) - Undan Gaum frá Auðsholtshjáleigu Dimmalimm frá Skógskoti (2011) - Undan Kappa frá Kommu 2012 kom merfolald undan Vilmundi frá Feti. Þeir eru þrír hestar á móti níu merum sem Hula hefur gefið. Vonandi á hún eftir að gefa nokkur afkvæmin til viðbótar sem munu skila rækturnarstarfinu til góðs með hjálp toppgæðinga. |