Haustið leið hratt þetta árið, langt liðið á vetur og jólin á næsta leiti. Þeir eru fáir dagarnir sem eru verkefnalausir sem einkennir líklega það hversu tíminn líður hratt. Síðan síðast hefur margt á dagana drifið. Laufskálaréttir, gestagangur, langir vinnudagar en einnig lá leiðin í Borgarfjörðinn á námskeið hjá Jakobi Sigurðssyni sem haldið var á Skáney. Gæðingarnir hafa verið að týnast inn síðan í nóvember og spennnandi þjálfunartímabil framundan. Laufskálaréttir er einn af hápunktum ársins hjá okkur sem búum hér í Hjaltadalnum og er ótrúlegt að sjá hversu mikið fólk safnast hér saman til þess að fylgjast með því sem fram fer. Það segir okkur kannski hversu stórt aðdráttarafl íslenski hesturinn er og ekki síður félagsskapurinn sem þar er að finna en þarna er komið saman fólk á öllum aldri sem bera sama áhuga og virðingu fyrir hestinum. Hér fylltist húsið af góðum vinum, dregið var í dilka, fólk tekið á tal og ekki síst var það grillaða lambalærið sem var gætt sér á og stóð sennilega upp úr eftir vel heppnaðan dag. Sigvaldi og Þórdís Anna lögðu land undir fót og skelltu sér á námskeið hjá honum Jakobi. Þar fengu þau ýmsan fróðleik sem þau tóku með sér í farteskinu og munu nýta í þjálfun á sínum hestum. Jakob hefur sannað sig sem mjög fær þjálfari sem hefur sýnt sig á keppnisvellinum og kynbótabrautinni og því var þetta gott tækifæri til að breikka sjóndeildarhringinn. Námskeiðið var vel heppnað með góðum hópi þáttakenda í flottri aðstöðu sem er í uppbyggingu hjá þeim á Skáney. Það mest spennandi er þó sennilega það að núna eru gæðingarnir loksins komnir á hús eft gott frí. Þeir eru nokkrir komnir á hús, bæði gamlir "hundar" og nýjir. Leiftur frá Búðardal ætlar að taka sinn síðasta vetur í fullu trimmi enda farinn að telja til ára sinna. Sóldögg lætur sig ekki vanta og ætlar að taka á því í skeiðinu næsta tímabil. Sparta frá Skógskoti, Þorradóttir, er einnig komin inn en hún er nú á 6. vetur og verður spennandi að sjá hvernig hún á eftir að þróast. Nú eru tveir nýjir geldingar komnir á hús, þeir Björgúlfur frá Syðra-Holti og Smyrill frá Hamraendum. Björgúlfur er á 6. vetur, lítið taminn en mjög efnilegur 5 gangari undan Álfi. Smyrill er "gamall vinur" frá því Sigvaldi vann á Staðarhúsum þar sem hann var í þjálfun en nú er hann kominn í Hjaltadalinn en hann er í eigu Stefáns og Ingibjargar á Akranesi. Hann er glæsilegur klárhestur sem mun vonandi taka sín fyrstu skref á keppnisbrautinni í vetur. Þessir hestar ásamt nokkrum hestum frá Hólabúinu verða í þjálfun hjá Sigvalda í vetur en einnig er lítil meri á 5. vetur unda Hróðri sem verður í prógrammi hjá nemendum í grunnþjálfun. Ef hún sýnir þar góða takta væri gaman að geta stefnt með hana á sýningu en það væri þá bara bónus á annars mjög skemmtilega hryssu. Framundan er gott jólafrí þar sem hlaða á batterí fyrir þétta dagskrá næsta vetrar og njóta í faðmi fjölskyldu og ferfætlinga. |