Í stað þess að vera rifja upp allt það merkilega frá síðustu færslu er ætlunin að byrja bara frá og með deginu í dag eða svo. Við teljum að ástæða fréttaleysis sé þvert á móti einhverskonar gúrkutíð - heldur kennum við því um að það hafi verið svo mikið að gera að ekki hafi gefist tími til að setjast niður við tölvu í fréttaskrif. En það má alveg deila um það.
Þó svo að tilkynnt hafi verið í síðustu færslu (sem birtist fyrir alltof löngu síðan) að við værum flutt í Hafnarfjörðinn er eins og flestir eflaust vita úreltar fréttir. Til að hafa heimildirnar réttar þá er víst að það komi hér fram að leiðir breyttust skyndilega þegar Sigvaldi fékk vinnu hjá Landbúnaðarháskóla Íslands 1. september síðastliðin. Fjölskyldan er nú búin að koma sér vel fyrir á Hvanneyri og sjá fram á bjarta framtíð í Borgarfirðinum! Sigvaldi starfar sem staðarhaldari á Mið-Fossum ásamt því að sjá um reiðkennslu sem þar fer fram. Þarna er frábær aðstaða til kennslu og þjálfunar. Á Mið-Fossum er fllott 80 hesta hús með eins og tveggja hesta stíum, björt og glæsileg reiðhöll, keppnisvöllur og góðar reiðleiðir. Framundan eru spennandi tímar, eins og alltaf! Eftir tveggja ára dvöl eru framundan breytingar, bæði hjá okkur fjölskyldunni og ferfætlingunum okkar. Ég hef sagt upp störfum sem reiðkennari við Háskólann á Hólum og erum við nú að koma okkur fyrir á nýjum stað. Það kemur eflaust fáum á óvart að við tökum land undir fót enda gerist það að meðaltali árlega. Já, það er gott að vera ungur og hraustur og geta leyft sér að finna hvar manni líður best. En nú er frumburðurinn að nálgast skólaaldur og þá þarf maður að hugsa hratt hvar er best að vera. Eftir að hafa verið fjarri fjölskyldu og vinum í öll þessi ár finnum við að nálægðin við þau skiptir máli, ekki síst fyrir börnin. Því höfum við tekið stefnuna suður fyrir heiðar og erum nú lent í höfuðborginni, n.t.t. í Hafnarfirði. Það liggur margt gott á bakvið síðustu tvö ár, frábærir vinir, nýr fjölskyldumeðlimur og fjöldinn allur af nemendum sem vonandi nutu góðs af mínum viskubrunni en ekki síður hef ég lært margt af þeim og eins þeim fjölda hrossa sem ég hef komst í tæri við á þessum tíma. Framundan eru tamningar og því auglýsi ég hér með laus pláss í tamningu í haust . Stefnan er að fara frumtamningar en einnig almenna þjálfun. Nú er um að gera panta tímanlega fyrir gæðingana sína. Hér má: Hafa samband Eins og allir vita er Landsmót á næsta leiti og mun Sigvaldi mæta þangað með fjögur hross í braut. Í A-flokk mun hann mæta með Leiftur frá Búðardal. Leiftur er orðinn gamalreyndur keppnishestur en hefur sjaldan verið í eins góðu formi og nú. Við erum vongóð um að hann eigi eftir að standa sig vel en erum raunhæf og þorum alveg að segja að hann eigi ekki eftir að ógna þeim Spuna og Óm í toppsætunum, en hver veit? Smyrill frá Hamraendum mætir í B-flokk. Smyrill er aftur á móti nýgræðingur í keppni og er að sækja sitt fyrsta Landsmót. Hann hefur aðeins kíkt á keppni það sem af er ári og er bara að bæta í þessa dagana og verður spennandi að sjá hvernig hann mun standa sig á "stóra" vellinum. Ég er viss um að hún Sóldögg frá Skógskoti hugsi með sér; ,,Minn tími er kominn"! Því síðast þegar Sóldögg var á leiðinni á Landsmót endaði hún á hlið í vegkanntinum á leið sinni á Vindheimamela 2011. En nú er hún komin inn á Landsmót aftur og er með 9. besta tíma ársins í 100m skeiði eða 7.87 sek. og sinn næst besta tími hingað til. (Hún hvíslaði að mér að hún ætlaði að bæta þennan tíma svo um verði talað.) Síðasta en alls ekki síðsta ber að nefna hana Völvu frá Hólum sem einfaldlega flaug inn á mót. Á kynbótasýningunni á Mið-Fossum náðu þau lágmörkunum í 5 vetra flokki hryssna og gott betur en það. Eftir yfirlitssýninguna stóð hún uppi sem efsta 5 vetra hryssa sýningarinnar með aðaleinkunn upp á 8.40 en það er einnig þriðja hæsta einkunn inn á Landsmót í þessum flokki. Hún hlaut 8.51 fyrir hæfileika, m.a. 9 fyrir fegurð í reið 8.5 fyrir tölt, brokk, skeið og vilja og 8 fyrir stökk og fet. Glæsilegur dómur hjá ungri meri en hún á alls ekki langt að sækja þetta. Föður hennar þekkja flestir en það er einmitt Sleipnisbikarshafinn þetta Landsmótið, hann Vilmundur frá Feti. Móðirina ættu menn að muna eftir frá Landsmóti 2011 þar sem hún stóð önnur í flokki 7. vetra og eldri með einkunnina 8.62, hún Þrift frá Hólum. Eins mun glitta í kappann í sýningum ræktunarbúanna Árbæjarhjáleigu og Hofsstaða í Garðabæ en svo verður hann einnig í starfi reiðkennarans því líkt og LM 2012 fylgir hann hópi af krökkum í barna-, unglinga- og ungmennaflokki á Landsmót. Þetta eru krakkar úr Skugga, einn úr Faxa og annar úr Neista og hefur hann verið að hitta þau nú í aðdraganda að Landsmóti. Það er ávalt gaman að fylgjast með yngri flokkunum og sjá hvað krakkarnir mæta ákveðnir til leiks og eru ánægð með sinn árangur þó hann skili þeim ekki endilega topp sætinu.
Það stefnir í ansi gott Landsmót og verður án efa skemmtun frá því að fyrsta hross ríður í braut fram að mótsslitum. Glæsilegir hestar og knapar eru skráðir til leiks og vonandi munu þeir ungu og efnilegu ná í hælana á þeim eldri og reyndari. Bara mæta nógu snemma og sjá hana Öskju frá Höfstöðum ríða á vaðið klukkan 9:30 á sunnudeginum og tryggja sér þar með gott stæði í brekkunni fyrir vikuna. ;) Sjáumst á Landsmóti! Jæja...tvær vikur liðnar frá fyrsta mótinu og nú er komið að fimmgangi. Þeim Smyrli og Sigvalda gekk nú ekki eins og vonað var í fjórgangnum...sennilega greip þá félaga feimni þegar þeir riðu inn á völlinn og þorðu þeir ekki að sína hvað þeir gætu. En úr því verður bætt síðar. Næsta verkefni er fimmgangurinn og mætir Sigvaldi með hinn síunga Leiftur frá Búðardal. Leiftur var lengi vel í höndum Ólafs Andra ,litla bróður, og náðu þeir félagar flottum árangri saman í keppni og eins útskrifuðust þeir saman héðan frá Hólum. Nú eru þeir Sigvaldi búnir að vera stilla sama strengi sína síðustu misseri og var kominn flottur stígandi í þeirra samband síðastliðið sumar. Nú, ef þeir taka upp þráðinn þar sem þeir skildu við hann síðastliðið haust gæti verið örlítil von um ágætis gengi í kvöld. Flottir hestar skráðir í braut ásamt nokkrum nýjum sem verður spennandi að sjá. Við segjum ennþá....áfram Weierholz! en þeir eru í 4. sæti í liðakeppninni og er liðstjórinn í öðru sæti í einstaklinskeppninni. Nokkuð gott gengi sem liggur nú bara upp á við! Gangi ykkur vel og fjölmennum á Svaðastöðum í kvöld!! Ráslisti;
1. Gísli Gíslason - Karl frá Torfunesi - Draupnir - Þúfur 2. Ísólfur Líndal Þórisson - Sólbjartur frá Flekkudal - Laekjamot.is 3. Sölvi Sigurðarson - Starkarður frá Stóru-Gröf - Laekjamot.is 4. Sigvaldi Lárus Guðmundsson - Leiftur frá Búðardal - Weierholz 5. Þorbjörn H. Matthíasson - Freyja frá Akureyri - Björg - Fákasport 6. Arnar Bjarki Sigurðarson - Engill frá Galtastöðum - Draupnir - Þúfur 7. Líney María Hjálmarsdóttir - Brattur frá Tóftum - Hrímnir 8. Jóhann B. Magnússon - Skyggnir frá Bessastöðum - Weierholz 9. Hörður Óli Sæmundarson - Hreinn frá Vatnsleysu - Hrímnir 10. Þórarinn Eymundsson - Þeyr frá Prestbæ - Hrímnir 11. Baldvin Ari Guðlaugsson - Svarta-Meyjan frá Hryggstekk - Top Reiter - Syðra Skörðugil 12. Tryggvi Björnsson - Villandi frá Feti - Top Reiter - Syðra Skörðugil 13. Vigdís Gunnarsdóttir - Flosi frá Búlandi - Laekjamot.is 14. Mette Mannseth - Stjörnustæll frá Dalvík - Draupnir - Þúfur 15. Hlín C Mainka Jóhannesdóttir - Sísí frá Björgum - Björg - Fákasport 16. Elvar E. Einarsson - Gáta frá Ytra-Vallholti - Top Reiter - Syðra Skörðugil 17. Bjarni Jónasson - Dynur frá Dalsmynni - Weierholz 18. Viðar Bragason - Þórdís frá Björgum - Björg - Fákasport Fyrsta mót KS-deildarinnar er næstkomandi miðvikudag og hefst hún á keppni í fjórgangi. Eins og fram hefur komið mun Sigvaldi vera með að þessu sinni eftir að hafa verið valinn af meistara Bjarna Jónassyni í lið sitt Weierholz sem er einnig skipað honum Jóhanni Magnússyni. Bjarni hefur sagt opinberlega að ástæðan fyrir valinu sé sú að Sigvaldi sé auðveldur viðureignar, enda sé hann Dalamaður. Við hér leggjumst nú ekki svo lágt að setja út á uppruna liðsfélaganna en vitum þó vel að Bjarni er Reykhólamaður sem þykir nú ekki sérlega merkilegur pappír í Dölunum. Hinsvegar er klárt mál að þegar einn Reykhólamaður, einn Dalamaður og einn Húnvetningur koma saman verður eitthvað svaðalegt. Er það ekki svoleiðis að þegar tveir mínusar koma saman verður einn plús? Hvað þá þrír...þá hlýtur að koma einn FEITUR plús!! Það kemur betur í ljós á miðvikudaginn þegar þessir fallegu menn (að sögn Bjarna) koma saman ásamt löngum lista af mótherjum og hestum þeirra sem eru nú ekki allir af verri endanum!! Sigvaldi mætir með Smyril en þeir tveir eru einmitt ræktaðir frá sama bæ, Hamraendum í Dölum! Smyrill er Þristssonur frá Feti, 9 vetra gamall og algjörlega óreyndur á keppnisvellinum en í honum býr slatti af hæfileikum en reynslan er það sem vantar og kemur í ljós hvernig þeir félagar taka sviðsljósinu. Spennan magnast, nú verður ekkert beðið lengur, það er komið að þessu! Nú er lítið hægt að fiffa það sem betur mætti vera...nema kannski maka geli í hárið og skella sér í einn ljósatíma til að eiga möguleika á nokkrum auka stigum frá dómurunum ef allt annað fer miður! Sjáumst á miðvikudaginn í Svaðastaðahöllinni á slaginu 20:00! Áfram WEIERHOLZ!!! Ráslisti:
1. Bjarni Jónasson – Roði frá Garði / Weierholz 2. Tryggvi Björnsson – Þytur frá Húsavík / Top Reiter – Syðra Skörðugil 3. Hlín C Mainka Jóhannesdóttir – Dúkkulýsa frá Þjóðólfshaga / Björg – Fákasport 4.Jóhann B. Magnússon – Embla frá Þóreyjarnúpi / Weierholz 5. Ísólfur Líndal Þórisson – Kristófer frá Hjaltastaðahvammi / Laekjamot.is 6. Baldvin Ari Guðlaugsson – Öngull frá Efri-Rauðalæk / Top Reiter – Syðra Skörðugil 7. Viðar Bragason – Björg frá Björgum / Björg – Fákasport 8. Líney María Hjálmarsdóttir – Völsungur frá Húsavík / Hrímnir 9. Elvar E. Einarsson – Hlekkur frá Lækjamóti / Top Reiter – Syðra Skörðugil 10. Mette Mannseth – Trymbill frá Stóra-Ási / Draupnir – Þúfur 11. Sölvi Sigurðarson – Bjarmi frá Garðakoti / Laekjamot.is 12. Arnar Bjarki Sigurðarson – Mímir frá Hvoli / Draupnir – Þúfur 13. Sigvaldi Lárus Guðmundsson – Smyrill frá Hamraendum / Weierholz 14. Vigdís Gunnarsdóttir – Freyðir frá Leysingjastöðum / Laekjamot.is 15. Þórarinn Eymundsson – Taktur frá Varmalæk / Hrímnir 16. Þorbjörn H. Matthíasson – Fróði frá Akureyri / Björg – Fákasport 17. Hörður Óli Sæmundarson – Fífill frá Minni-Reykjum / Hrímnir 18. Gísli Gíslason – Ljóska frá Borgareyrum / Draupnir – Þúfur Kæru vinir. Við óskum ykkur gleðilegs nýs árs með þökk fyrir það liðna. Nýju ári er tekið fagnandi og erum við fullviss um að það beri eitthvað gott í skauti sér. Hátíðarnar hafa verið notalegar umkringd okkar nánasta fólki en spennandi tímabil er framundan bæði hjá ferfætlingum og okkur hinum. Á liðnu ári ber hæst fæðing Helga Hrafns 13. júní og eins var gaman þegar ljósmyndin hér að ofan bar sigur úr bítum í ljósmyndakeppni Eiðfaxa. Ár ferfætlinganna var ásættanlegt. Leiftur frá Búðadal batnaði með hverju mótinu í ár og stefnir á að gera enn betur 2014. Merin Sparta frá Skógskoti var sýnd og fékk glæsilega byggingareinkunn eða 8.37. Henni tókst ekki eins vel til í hæfileikadómnum en hún á það bara inni...vonandi í vor. Sóldögg stóð sig með stakri príði þó svo að hún hafi ekki sýnt sitt besta á stórmótum. Aftur á móti tókst henni að sigra nokkur mót og vera í toppnum á öðrum. Hún stóð uppi sem sigurvegari á Tekið til kostanna, Skagfirsku mótaröðinni, Riddaramóti Norðurlands, úrtökumót Stíganda og Léttfeta, varð 7. á Íslandsmótinu, 4. á Fjórðungsmóti Vesturlands og 2. á Sumarsmelli Harðar þar sem hún bætti tíman sinn í 7.86. Sigvaldi fór einnig með Akksdótturina Rausn frá Hólum í dóm og náði þar tæpum 1. verðlaunum. Einnig riðu þau sig inn á Fjórðungsmót Vesturlands í A-flokki og stóð hún sig þar með stakri prýði. Rausn er þræl skemmtileg meri, var reynslulítil á brautinni en toppaði allt í reiðtúrum með skemmtilegum vilja og fasi. Tvö folöld fæddust okkur í sumar. Bleikálóttur hestur undan Kolgrímsdótturinni Höllu frá Hamraendum og Hlyni frá Haukatungu og rauðstjörnótt meri undan Baldursdótturinni Hulu frá Hamraendum og Sóloni frá Skáney. Heimasætan á bænum hún Elísabet Líf sá um nafngift á þeim báðum. Merin fékk nafnið Rósa, sennilega í höfuðið á vinkonu sinni Rósu á Narfastöðum. Hesturinn fékk nafnið Skuggi. Sú fluga kom í hausinn á henni þegar keyrt var fram hjá hesthúsahverfi Skugga í Borgarnesi. Skemmtilegt hugmyndaflug hjá einni 4 ára en hún er strax byrjuð að leggja höfuðið í bleyti fyrir folöldum næsta sumars. Tveim merum var haldið í sumar, mæðgunum Hulu og Þrumu frá Skógskoti. Þær voru samferða að Feti í Rangárvallasýslu og heimsóttu töffarann Straum frá Feti sem var hæst dæmdi klárhestur ársins 2013 með aðaleinkunn upp á 8.34. Ekki við öðru að búast en að gæðingar fæðist okkur næstkomandi sumar. Framundan er spennandi keppnistímabil. Sigvaldi mun taka þátt í Meistaradeild Norðurlands og að sjálfsögðu eru markmiðin sett hátt en samt sem áður raunhæf. Flottur hópur hesta eru á húsi og er markmiðið að allir fjölskyldumeðlimir verði duglegri í hesthúsinu. Heimasætan var dressuð upp í ný reiðföt um jólin og spurning hvort frúin á bænum dusti rikið af reiðbuxunum og hjálminum og rifji upp gleymda takta í hestamennskunni.
|