Sigvaldi hefur aðeins verið að skreppa af bæ með hesta sína í eftirdragi þó ekki í miklu magni. Þeir Leiftur frá Búðardal skelltu sér í fimmgang í Skagfirskumótaröðinni fyrr í vetur með ágætis tilburðum. Þeir félagar höfnuðu í 6. sæti eftir forkeppni og áttu þá öruggt sæti í B-úrslitum. Þeir félagar mættu sprækir í úrslitin, áttu þar flotta skeiðspretti sem færðu þeim farmiða í A-úrslitin. Þó þeir félagar væru orðnir frekar þreyttir enda langt liðið á kvöldið, kláruðu þeir úrslit með ágætum og enduðu í 4. sæti. Ágætis byrjun hjá þeim gamla.
Í mars var svo komið að Sóldöggu frá Skógskoti að taka fyrstu skeiðspretti ársins en þau tóku þátt í áskorendamóti Riddara norðursins fyrir lið Narfastaða. Þrælskemmtilegt mót þar sem riðin eru úrslit í þessum almennu greinum og endað á flugskeiði í gegnum höllina. Þau höfðu nú áður skeiðað þarna í gegn en ekki síðan 2010 og þá á tímanum 5.17. Markmið þessa móts var að ná heilum og gallalausum sprettum í gegnum höllina og ekki lagt upp með neinar bætingar enda fyrsta mót ársins. Það tókst, tveir flottir sprettir og fjöður í hattinn með sigri á tímanum 5.33 og eins sigraði lið Narfastaða í heildarkeppninni. Í byrjun apríl mættu þau á Skagfirsku mótaröðina, auknar kröfur að sjálfsögðu, tíminn 5.21 og sigur. Í lok apríl mættu þau á stórsýninguna Tekið til kostana þar sem að margir góðir hestar mættu til leiks í skeiðið. Þarna voru settar kröfur á gömlu og kom ekkert annað til greina en bæting. Hún gerði gott betur en það og sprengdi 5 sek. múrinn og á 4.99 sek. í gegnum höllina og það færði þeim sigurinn heim. Þrjú mót og þrír sigrar gefa keppnistímabilinu framundan góðan byr. Þá má með sönnu segja að Sóldögg sé búin að vera efnileg frá því hún var folald þar sem hún sýndi snemma fram á tilburði sína á skeiði og fór vart um á öðrum gangi. Sigvaldi ræktaði hana sjálfur og hefur tamið hana alla tíð með smá inngripi frá föður hans þegar tímaskortur var með námi og vinnu. 2007/2008 var hún tekin fyrst á keppnisbrautina og bætti sig stigjafnandi. Það var svo 2009 sem hún var farin að slá sér upp í toppsætin. Veturinn 2010 byrjaði mjög vel en eins og glöggir hestamenn vita þá tók við þarna um vorið hestapestin skæfa sem lagðist þungt á Sóldöggu. Hún fékk mikinn hósta og fór strax út um vorið og kom ekki inn fyrr en næsta vetur. Það tímabil gekk mjög vel. Sigvaldi keppti á henni í Uppsveitadeildinni og sigraði það og á hún enn metið í gegnum höllina, 2.94 sek. Um vorið 2011 var Sigvaldi duglegur að mæta með hana til leiks og sýndi hún mikla tilburði. Hún rauf loksins 8 sek. múrinn og fór best á 7.87 og gerði það einnig gott í gæðingaskeiði. Sóldögg og Sigvaldi voru búin að vinna sér inn rétt til að keppa á landsmóti með einn af bestu tímum ársins og lá leið þeirra í Skagafjörðinn þar sem gera átti gott. Betra var það ekki en svo en þegar mætt var í Skagafjörðinn fer kerran aftan úr bílnum með Sóldöggu innanborðs. Hún slasast verulega, hún var þó óbrotin en við tók vonin um að hún myndi ekki bera varanlegan skaða af. Hún var ótrúlega fljót að ná sér og í lok sumars náðu þau meira að segja að mæta á eitt eða tvö mót og ná þar góðum tíma. Í fyrra náði hún aldrei sínu besta, hún fór að hósta sem jókst með sumrinu og ekkert annað við því að gera en að pása hana og úr varð rólegt sumar í keppni. Já...þetta hafa ekki alltaf verið 7 dagarnir sælir með hana Sóldöggu. Nú er hún hinsvegar á feiknargóðu róli og vonandi fær hún loks að sýna hvað í henni býr og hún hætti að vera "efnileg" og fari virkilega að sýna sitt allra besta.
Horft inn Hjaltadalinn í vetrarklæðum. Nýtt ár gengið í garð með viðburðaríku ári að baki. Lífið á Hólum fer vel með mannskapinn þrátt fyrir snjóþungan og kaldan vetur. Nú er sólin farin að láta sjá sig á ný eftir smá dvala í svartasta skammdeginu og má finna smá "vorlykt" í loftinu eftir að snjóinn tók að þiðna. Nú fer að færast meira líf í hestamennskuna þó svo að hestamennskan lifi allt árið hér á Hólum. En nú eru gæðingarnir að komast í fínt form og styttist í keppnir og sýningar og verður spennandi að sjá nýja hesta og vonandi nýja og flotta knapa koma fram. Sigvaldi er búinn að vera með hesta á húsi síðan í haust. Frumtamdi hana Trommu frá Skógskoti, Hróðsdóttur á 4. vetur. Hún fór fínt af stað en verður úti í vetur þar sem hún er frekar lítil og fær að taka út meiri þroska áður en meira verður tekið til hennar. Í nóvember komu svo inn reiðhestarnir; Leiftur frá Búðardal, Sóldögg, Gló, Sparta og Glóra, allar frá Skógskoti. Glóra er nú seld. Samhliða þessu hefur hann verið með 1-2 í tamningu eða þjálfun fyrir aðra. Þrándur frá Skógskoti er einnig hér á Hólum en er í hópi skeiðhesta fyrir nemendur á þriðja ári hér við skólann. Eins og staðan er í dag eru hestarnir sem verða á húsi hjá Sigvaldi í vetur þau Sóldögg sem stefnt verður með í skeiðgreinar, Sparta, Þorradóttir á 5. vetur og stefnt er með á kynbótasýningu í vor og loks Leiftur frá Búðardal. Leiftur er Jarlssonur og gerði flotta hluti með Ólafi Andra á keppnisvellinum hér áður en er nú hjá Sigvalda. Hann er orðinn 16 vetra en er að komast í flott form og verður vonandi klár í eina eða tvær keppnir á þessu tímabili. Nú eru einnig tvö hross í þjálfun hjá honum, skemmtilegur graðhestur á 5. vetur undan Þorra frá Þúfu, hann Karri frá Kirkjuskógi og efnileg meri á 6. vetur, Björt frá Syðra-Garðshorni sem er undan Álfasteini frá Selfossi og Kleópötru frá Nýjabæ og er því sammæðra Pílu frá Syðra-Garðshorni sem stóð efst í flokki 5. vetra mera á Landsmóti 2008. Samhliða kennslunni þjálfar hann nú einnig hross í eigu Hólabúsins sem flest eru nokkuð frambærileg. Það verður víst nóg að gera í vetur og alltaf spennandi að sjá hvernig hlutirnir þróast.
Gaumssonur Nóg er af fréttum þó svo fréttaveitan hafi ekki verið að standa sig síðustu vikurnar. Fullt um að vera á Staðarhúsum hjá Sigvalda, Lindu og Freyju. Freyja er í verknámi hjá Sigvalda en hún er að klára 2. árið á Hólum núna í vor. Framundan eru m.a. kynbótasýningar með þau hross sem verða tilbúin til dóms. Íþróttamót Skugga er næstu helgi sem sennilega verður mætt á og svo styttist óðfluga í úrtöku og Landsmótið nálgast hratt. Nú, Sigvaldi stefnir ekki með mikið á Landsmót en hann stefnir á að ná tíma með Sóldögg í 100 metrana og jafnvel eitthvað í kynbótadóm ef allt gengur upp núna í vor. Svo hefur hann einnig verið að kenna krökkunum í Skugga í vetur sem stefna á úrtöku fyrir Landsmót og sennilega mun hann svo fylgja þeim krökkum eftir sem komast áfram. Sigvaldi fór með Sóldögg á Reykjavíkurmeistaramótið síðustu helgi. Kepptu þar í 100m fljúgandi skeiði og gekk það ágætlega. Þau lágu báða sína spretti og var sá betri á 8.35 sek. og skilaði þeim 7. sætinu. Fyrsta keppnin í ár og ætti hún að eiga nóg inni fyrir komandi tímabil. Vorboðarnir eru farnir að gera vart við sig, ekki lóan sem er löngu komin heldur folöldin! Fyrsta folaldið mætti síðastliðinn föstudag, fagur-jarpur og stór-stjörnóttur foli undan Gaum frá Auðsholtshjáleigu og Þrumu frá Skógskoti. Þetta er fyrsta afkvæmi Þrumu en hún er meri með fyrstuverðlauna úr ræktun Sigvalda og fjölskyldu. Næstu daga er stefnt á að koma inn eitthverjum myndum en yfirleitt eru þær miklu skemmtilegri en svona mas og þras. Fylgist með.... |