Sigvaldi Lárus
Sigvaldi Lárus
  • Forsíða
  • Tamningar og þjálfun
  • Reiðkennsla
  • Sigvaldi Lárus
  • Söluhross
  • Myndir
  • Hafa samband

Sumarið: Stiklað á stóru

16/9/2013

 
Picture
Völva frá Hólum - Fjögra vetra
Picture
Rausn frá Hólum
Picture
Sparta frá Skógskoti - fimm vetra
Nú er að spíta í lófana, síðan búin að vera í fríi lengur en þeir sem að henni koma! En allir fjölskyldumeðlimir hafa verið í fríi í allt sumar. Sigvaldi byrjaði reyndar fyrr í vinnunni en áætlað var og heimasætan Elísabet byrjaði ekki í leikskólanum fyrr en 1. sept. og er húsmóðirin enn í fríi. Ástæða þessa mikla frís er að nýr fjölskyldumeðlimur mætti í heiminn 13.06.13 og má segja að lífið hafi að mestu leiti snúist hann síðan þá (ásamt því að elta Sigvalda og "bikkjurnar" um hálft Ísland). 

En húsmóðirin ákvað að halda í sér svo Sigvaldi gæti klárað vinnu og kynbótasýningar en þó nógu tímalega svo ekki myndi rekast á keppnir og annað sem stefnt var á. Þetta gekk allt upp, lítill og heilbrigður drengur mætti í heiminn og lífið lék við fjölskylduna. Það varð þó smá bakslag því þegar drengurinn var aðeins viku gamall veikist hann og allt var sett á "hold". Vikudvöl á barnadeildinni á Akureyri tók við á meðan sá litli jafnaði sig á sýkingu sem hann hafði fengið. Þrátt fyrir þetta gerðum við gott úr sumrinu; sumarbústaður, borgarferð, sveitaferð, fjórðungsmót, íslandsmót, skeiðmót, íþróttamót og fleiri mót, almenn ferðalög og góðar heimsóknir. 

Nú erum við loksins lent á Hólum eftir gott frí, skólastarfið er byrjað með krafti og veturinn aldeilis farinn að gera vart við sig. Laufksálaréttir eru á næsta leiti og hlökkum við til að fá góða gesti. Eftir það sjáum við fram á að leggjast í dvala fram á næsta vor...annaðhvort það eða fá góðan og ljúfan vetur sem fer vel mað mannskapinn.

Framundan hér á síðunni er mikil vinna. Setja inn fleiri myndir, gera upp sölusíðuna og ef tími gefst væri gaman að setja eitthvað um hestana okkar og ræktunina.
Picture
Sigvaldi, Elísabet Líf, Marta og Helgi Hrafn.

Upprifjun

2/5/2013

 

   

Picture
Sigvaldi og Leiftur á hlaupum
Þó tíðindi héðan hafa verið heldur döpur í vetur hefur engu að síður margt drifið á daga okkar hér fyrir norðan. Veturinn hefur verið góður upp á síðkastið þó hann sýni þess ekki merki að vilja fara. Við höldum þó fast í vonina um að vorið komi og við fáum hlýtt og gott sumar.

Hér á Hólum er ávalt líf og fjör. Nemendur halda uppi mannlífinu og margir nýjir mættir á svæðið þar sem um 20 nemendur mættu hingað galvaskir í mars til að þreyta síðasta 3ja árið sem kennt verður með gamla kerfinu. 2. árs nemar eru síðan flognir í verknám og nú styttist óðum í próf hjá hinum. Útskrift er á næsta leyti og sumarleyfi taka við. Alltaf nær þessi tími að koma aftan að manni þar sem manni finnst haustlaufin nýfallin, vetrartíðin staldrað stutt og að jólin hafi bara verið í gær. En alltaf kemur sú góða stund að maður tekur á móti sumrinu með opnum örmum sem sennilega flýgur hraðast yfir af okkar íslensku árstíðum. En þá er bara best að njóta á meðan laufin hanga á trjánum.
Sigvaldi hefur aðeins verið að skreppa af bæ með hesta sína í eftirdragi þó ekki í miklu magni. Þeir Leiftur frá Búðardal skelltu sér í fimmgang í Skagfirskumótaröðinni fyrr í vetur með ágætis tilburðum. Þeir félagar höfnuðu í 6. sæti eftir forkeppni og áttu þá öruggt sæti í B-úrslitum. Þeir félagar mættu sprækir í úrslitin, áttu þar flotta skeiðspretti sem færðu þeim farmiða í A-úrslitin. Þó þeir félagar væru orðnir frekar þreyttir enda langt liðið á kvöldið, kláruðu þeir úrslit með ágætum og enduðu í 4. sæti. Ágætis byrjun hjá þeim gamla.

Í mars var svo komið að Sóldöggu frá Skógskoti að taka fyrstu skeiðspretti ársins en þau tóku þátt í áskorendamóti Riddara norðursins fyrir lið Narfastaða. Þrælskemmtilegt mót þar sem riðin eru úrslit í þessum almennu greinum og endað á flugskeiði í gegnum höllina. Þau höfðu nú áður skeiðað þarna í gegn en ekki síðan 2010 og þá á tímanum 5.17. Markmið þessa móts var að ná heilum og gallalausum sprettum í gegnum höllina og ekki lagt upp með neinar bætingar enda fyrsta mót ársins. Það tókst, tveir flottir sprettir og fjöður í hattinn með sigri á tímanum 5.33 og eins sigraði lið Narfastaða í heildarkeppninni. Í byrjun apríl mættu þau á Skagfirsku mótaröðina, auknar kröfur að sjálfsögðu, tíminn 5.21 og sigur. Í lok apríl mættu þau á stórsýninguna Tekið til kostana þar sem að margir góðir hestar mættu til leiks í skeiðið. Þarna voru settar kröfur á gömlu og kom ekkert annað til greina en bæting. Hún gerði gott betur en það og sprengdi 5 sek. múrinn og á 4.99 sek. í gegnum höllina og það færði þeim sigurinn heim. Þrjú mót og þrír sigrar gefa keppnistímabilinu framundan góðan byr. 

Þá má með sönnu segja að Sóldögg sé búin að vera efnileg frá því hún var folald þar sem hún sýndi snemma fram á tilburði sína á skeiði og fór vart um á öðrum gangi. Sigvaldi ræktaði hana sjálfur og hefur tamið hana alla tíð með smá inngripi frá föður hans þegar tímaskortur var með námi og vinnu. 2007/2008 var hún tekin fyrst á keppnisbrautina og bætti sig stigjafnandi. Það var svo 2009 sem hún var farin að slá sér upp í toppsætin. Veturinn 2010 byrjaði mjög vel en eins og glöggir hestamenn vita þá tók við þarna um vorið hestapestin skæfa sem lagðist þungt á Sóldöggu. Hún fékk mikinn hósta og fór strax út um vorið og kom ekki inn fyrr en næsta vetur. Það tímabil gekk mjög vel. Sigvaldi keppti á henni í Uppsveitadeildinni og sigraði það og á hún enn metið í gegnum höllina, 2.94 sek. Um vorið 2011 var Sigvaldi duglegur að mæta með hana til leiks og sýndi hún mikla tilburði. Hún rauf loksins 8 sek. múrinn og fór best á 7.87 og gerði það einnig gott í gæðingaskeiði. Sóldögg og Sigvaldi voru búin að vinna sér inn rétt til að keppa á landsmóti með einn af bestu tímum ársins og lá leið þeirra í Skagafjörðinn þar sem gera átti gott. Betra var það ekki en svo en þegar mætt var í Skagafjörðinn fer kerran aftan úr bílnum með Sóldöggu innanborðs. Hún slasast verulega, hún var þó óbrotin en við tók vonin um að hún myndi ekki bera varanlegan skaða af. Hún var ótrúlega fljót að ná sér og í lok sumars náðu þau meira að segja að mæta á eitt eða tvö mót og ná þar góðum tíma. Í fyrra náði hún aldrei sínu besta, hún fór að hósta sem jókst með sumrinu og ekkert annað við því að gera en að pása hana og úr varð rólegt sumar í keppni. Já...þetta hafa ekki alltaf verið 7 dagarnir sælir með hana Sóldöggu.

Nú er hún hinsvegar á feiknargóðu róli og vonandi fær hún loks að sýna hvað í henni býr og hún hætti að vera "efnileg" og fari virkilega að sýna sitt allra besta.

Picture
Sigvaldi og Sóldögg á flugi.

Meistaradeild KS

19/2/2013

 
Picture
Hörður Óli og Daníel frá Vatnsleysu
Picture
Hekla Katharína og Hringur frá Skarði
Úrtaka fyrir Meistaradeild KS fór fram í lok janúar og þótti skráning með besta móti. Keppt var um 8 laus sæti í deildinni og voru þétt setnir bekkirnir af hest-þyrstum áhorfendum. Fínustu hestar öttu þarna kappi og þeir 8 bestu fá svo að etja keppni við þá 10 bestu frá í fyrra. Vonandi verður deildin spennandi í ár og að hart verði brist um titilinn sem Bjarni Jónasson heldur sem fastast um frá því hann sigraði í fyrra. 

Í vikunni verður svo fyrsta keppnin og þá í fjórgangi. Þekkja má nokkra gæðingana sem skráðir eru til leiks, m.a. Penna frá Glæsibæ, Roða frá Garði, Kristófer frá Hjaltastaðahvammi, Hlekk frá Lækjamóti og Takt frá Varmalæk. Þessa hefur maður séð til á vellinum áður og er spurning hvort þeir berjist um þetta eða hvort einhver komi óvænt að sigrinum, jafnvel nýliði í deildinni!

Alltaf er þetta jafn spennandi!

Fyrir áhugasama má sjá myndir frá úrtökunni í janúar sem nálgast má HÉR

Nýja árið!

20/1/2013

 
Picture
Horft inn Hjaltadalinn í vetrarklæðum.
Nýtt ár gengið í garð með viðburðaríku ári að baki. Lífið á Hólum fer vel með mannskapinn þrátt fyrir snjóþungan og kaldan vetur. Nú er sólin farin að láta sjá sig á ný eftir smá dvala í svartasta skammdeginu og má finna smá "vorlykt" í loftinu eftir að snjóinn tók að þiðna. Nú fer að færast meira líf í hestamennskuna þó svo að hestamennskan lifi allt árið hér á Hólum. En nú eru gæðingarnir að komast í fínt form og styttist í keppnir og sýningar og verður spennandi að sjá nýja hesta og vonandi nýja og flotta knapa koma fram. 

Sigvaldi er búinn að vera með hesta á húsi síðan í haust. Frumtamdi hana Trommu frá Skógskoti, Hróðsdóttur á 4. vetur. Hún fór fínt af stað en verður úti í vetur þar sem hún er frekar lítil og fær að taka út meiri þroska áður en meira verður tekið til hennar. Í nóvember komu svo inn reiðhestarnir;  Leiftur frá Búðardal, Sóldögg, Gló, Sparta og Glóra, allar frá Skógskoti. Glóra er nú seld. Samhliða þessu hefur hann verið með 1-2 í tamningu eða þjálfun fyrir aðra. Þrándur frá Skógskoti er einnig hér á Hólum en er í hópi skeiðhesta fyrir nemendur á þriðja ári hér við skólann. 

Eins og staðan er í dag eru hestarnir sem verða á húsi hjá Sigvaldi í vetur þau Sóldögg sem stefnt verður með í skeiðgreinar, Sparta, Þorradóttir á 5. vetur og stefnt er með á kynbótasýningu í vor og loks Leiftur frá Búðardal. Leiftur er Jarlssonur og gerði flotta hluti með Ólafi Andra á keppnisvellinum hér áður en er nú hjá Sigvalda. Hann er orðinn 16 vetra en er að komast í flott form og verður vonandi klár í eina eða tvær keppnir á þessu tímabili. Nú eru einnig tvö hross í þjálfun hjá honum, skemmtilegur graðhestur á 5. vetur undan Þorra frá Þúfu, hann Karri frá Kirkjuskógi og efnileg meri á 6. vetur, Björt frá Syðra-Garðshorni sem er undan Álfasteini frá Selfossi og  Kleópötru frá Nýjabæ og er því sammæðra Pílu frá Syðra-Garðshorni sem stóð efst í flokki 5. vetra mera á Landsmóti 2008. Samhliða kennslunni þjálfar hann nú einnig hross í eigu Hólabúsins sem flest eru nokkuð frambærileg. 

Það verður víst nóg að gera í vetur og alltaf spennandi að sjá hvernig hlutirnir þróast.



Hula frá Hamraendum 20 ára!

20/11/2012

 
Picture
Hula og Tromma
Hula sem er fædd 1992 var sýnd 5 vetra þá lítið tamin í einkunnina 7.94. Hula er með  1. verðlaun fyrir sköpulag og fyrir hæfileika er hún með 8.0 á línuna nema 6.5 fyrir brokk. Því miður var hún ekki sýnd aftur en hún átti mikið inni sem eflaust hefði skilað henni 1. verðlaunum. Það voru bræðurnir Sigvaldi og Óli sem fengu að njóta hennar í staðinn til útreiða og keppna. Sigvaldi hafði komið henni inn á landsmót 1998 en því miður  gátu þau ekki mætt á mótið en gaman hefði verið að sjá hvernig þeim hefði til tekist.
7 vetra var Hulu fyrst haldið og hún hefur skilað 12 afkvæmum. Hryssan hefur gefið allhiðahross, yfirleitt með góðu skeiði. Þetta eru næm, viljug og vinnusöm hross með ágætum fótaburði.  
Picture
Dreki og Svandís á Svellköldum konum 2008. Höfnuðu þau í 4. sæti í flokknum minna vanar.


Dreki frá Skógskoti (2000) var undan Hrynjanda frá Hrepphólum.  Dreki var mikill gæðingur og sjálfskipaður höfðingi hússins og þ.a.l.  frúarhesturinn. Svandís, móðir Sigvalda, var farin að keppa á honum mikið og byrjuð að ná góðum árangri þegar Dreki fórst skyndilega úr hrossasótt. Mikil eftirsjá er af Dreka sem var algjör draumahestur og fyrsta afkvæmi Hulu.
Picture
Sóldögg
Picture
Sóldögg
Sóldögg frá Skógskoti (2001) undan Róm frá Búðardal. Sóldögg hefur verið að ná góðum árangri í skeiðgreinum. Hún er mikill vekringur og á hún best einkunnina 7.33 í gæðingaskeiði og 7.87 sek. í 100m fljúgandi skeiði. Þessi tími kom henni fljúgandi inn á landsmót 2011 sem fór ekki betur en svo að á leiðinni þangað slasast hún verulega þegar kerra sem hún var í veltur utan vegar. Það var leiðinlegt að tímabilið var búið áður en það byrjaði þar sem árið áður hafði hún einnig verið úr leik sökum hestapestarinnar. Gleðin er sú að Sóldögg virðist ekki ætla kenna sér mein af þessari reynslu og er komin á fullt fjör og tilbúin í slaginn.



2002 og 2003 komu merarnar Kúnst undan Snerri frá Bæ og Snerpa undan Þjótanda frá Svignaskarði. Þær voru afbragðs reiðhryssur sem eru nú seldar.


Picture
Þruma
Þruma frá Skógskoti (2004) undan Þjótanda frá Svignaskarði. Þruma var sýnd 4 vetra af Bjarna Jónassyni í tæp 1. verðlaun og hlaut miða inn á landsmót 2008. Óli tekur við þjálfun hennar að því loknu og sýnir hana 6 vetra í 8.24 fyrir hæfileika og 8.09 í aðaleinkunn. Þrumu tókst einnig að útskrifa Sigvalda af reiðkennaradeildinni á Hólum á meðan aðrir hestar voru frá vegna pestarinnar 2010. Þruma er skemmtileg hryssa sem er komin í ræktun. Hún kastaði myndarlegu hestfolaldi snemma í sumar undan Gaum frá Auðsholtshjáleigu. Hún er nú fylfull við Hágangi frá Narfastöðum.
Picture
Þrándur
Þrándur frá Skógskoti (2005) er undan Glampa frá Vatnsleysu. Hann lét ekki mikið fyrir sér fara framan af og en hefur verið að koma skemmtilega til. Hann er viljugur og einstaklega vinnusamur hestur.

Gullbrá frá Skógskoti (2006) er undan landsmótsmeistaranum Geisla frá Sælukoti. Hún mun nú ekki feta í fótspor föður síns á keppnisvellinum en hefur mikla burði í að verða æðisleg reiðhryssa fyrir alla. Hún er viljug, mjúk og þjál sem fer vel með manninn. Hún er nú seld.

Picture
Huldar
Picture
Tromma
Gló frá Skógskoti (2007) er undan skagfirska Glampanum. Gló er á  5. vetur, alhliðageng, stór og mjög falleg. 


Úti í stóði eru svo spennandi tryppi sem flest lofa góðu.
Tromma frá Skógskoti (2009)
- Undan Hróðri frá Refsstöðum
 Huldar frá Skógskoti (2010 - ógeltur)
- Undan Gaum frá Auðsholtshjáleigu
Dimmalimm frá Skógskoti (2011)
- Undan Kappa frá Kommu
2012 kom merfolald undan Vilmundi frá Feti.


Þeir eru þrír hestar á móti níu merum sem Hula hefur gefið. Vonandi á hún eftir að gefa nokkur afkvæmin til viðbótar sem munu skila rækturnarstarfinu til góðs með hjálp toppgæðinga.


Sumarlok

2/9/2012

 
Picture
Elísabet Líf í haustlitunum á Hólum
Picture
Sigvaldi og Elísabet á Hamraendum í kvöldsólinni.
Picture
Aron Freyr og Hlynur frá Haukatungu
Þó fréttaflutningur hafi verið nokkuð takmarkaður í sumar er nóg af þeim. Í stuttu máli væri gaman að rifja upp sumarið sem hefur verið sérlega gott. Landsmótið var sótt og augu barin á fjölmörg efnileg hross og önnur sem hafa sannað sig margsinnis. Að sækja Fáksmenn heim var alveg til fyrirmyndar og þá sérlega fyrir hross og knapa. Svæði áhorfenda og gesta var líka glæsilegt. Þetta er klárlega svæði sem landsmót á heima jafnt sem á landsbyggðinni. 
Segja má að Sigvaldi hafi verið í fullri vinnu við það að fylgja eftir nemendum sínum á völlinn. Mánudagurinn byrjaði á barnaflokki þar sem að fjórir krakkar kepptu í forkeppni. Þrjú þeirra riðu sig beint upp í milliriðla og skemmtilegt að segja frá því að þau voru öll að keppa fyrir Hestamannafélagið Skugga og því 100% árangur þar. Krakkarnir Aron, Gyða og Arna stóðu sig svo með príðum í milliriðlum. Aron og Gyða komust allaleið í B-úrslit og ekki lauk því þar því Aron og Hlynur riðu sig örugglega upp í A-úrslitin þar sem þeir enduðu í öðru sæti á eftir parinu Kambani og Glódísi.  Gyða og Hermann enduðu í því  13. og Arna og Bíldur í því 25. Frábær árangur hjá þeim öllum. Unglingarnir og ungmennin stóðu sig einnig vel, stelpa úr hestamannafélaginu Glað komst í milliriðla ungmenna með flottum árangri og unglingarnir voru alls ekki svo langt frá því að komast í milliriðla. Mikil ánægja var því þegar Landsmóti loksins lauk og sérstaklega gaman að sjá árangur Skugga-krakkanna. 

Þegar Landsmóti lauk blöstu við smá tímamót en Sigvaldi sagði skilið við Staðarhús þar sem hann hefur unnið allan síðastliðinn vetur. Ástæðan er sú að hann hefur ásamt fjölskyldu sinni flutt sig enn og aftur um set allaleið norður í Skagafjörð. Þar er Sigvaldi farinn að starfa við Háskólann á Hólum sem reiðkennari.  En þá má þó segja að söknuður verði í Borgarfjörðinn.

En sumarið hefur verið sérlega gott, blandað vinnu, fríi og flutningum. Fjölskyldan eyddi miklum tíma á Hamraendum sem er sumardvalastaður fjölskyldunar jafnt sem ferfætlingana sem þeim fylgja. Hér á Hólum er farið hausta verulega, frostnætur og snjór í fjöllum. Alvaran tekin við, nemendur mættir á svæðið og skólinn byrjaður.

Sumarannir

18/6/2012

 
Picture
Feðginin Elísabet og Sigvaldi
Picture
Leiftur og Sigvaldi í Búðardal
Picture
"Nóni" Gaumssonur
Picture
Arna og Bíldur voru sigurvegarar í barnaflokki og valin par mótsins. Þau verða flott á landsmótinu fyrir hönd Skugga.
Það hefur ansi mikið drifið á dagana frá síðustu fréttum. Sumarið er óneitanlega mætt, 17. júní kominn og farinn, landsmótið byrjar með fullum krafti í næstu viku og styttist óðum í verslunarmannahelgina..... kannski ekki alveg en sumarið er yfirleitt fljótara að fara en að koma og gott að vera á verði um að það fari ekki á undan manni inn í veturinn.

Á Staðarhúsum hefur verið í nógu að snúast, hrossin loks komin á grænt og önnur farin í frí, eitthvað hefur farið í keppni og annað í kynbótadóm. Á þessum annartíma mætti alveg fá auka stundir í sólarhringinn en þessar 24 sem fyrir eru verða bara að duga.

Um helgina fór Sigvaldi með hann Leiftur frá Búðardal vestur í Búðardal á Hestaþing Glaðs. Þar var skemmtilegt stemning og flottir hestar sem mættu til leiks. Eftir forkeppni í A-flokk stóð Leiftur efstur en tóku þeir félagar upp á því að skeiða ekki í úrslitunum og hröpuðu þar af leiðandi niður og ráku lestina í þetta skiptið. Leiftur er reyndur á keppnisbrautinni. Hann hefur m.a. verið Íslandsmeistari ungmenna með Ólafi Andra og att kappi í úrslitum á öðrum  stórmótum. Hann er einnig "útskrifaður" Hólahestur en Ólafur Andri notaði hann í námi sínu á Hólum

Sigvaldi fór með Leiftur í úrtöku fyrir Landsmót nú á dögunum fyrir hestamannafélagið Glað. Það voru fimm hestamannafélög á Vesturlandi sem héldu sameiginlega úrtöku á vellinum í Borgarnesi, rúmlega 80 skráningar og mikið af glæsilegum hestum sem mættu til leiks. Leiðinlegt þótti þó að einungis voru þrír dómarar sem dæmdu mótið. Það má lengi deila um hvort það sé ásættanlegt fyrir knapa að fá ekki að njóta vafans með einkunnagjöf og þá sérstaklega þá sem lenda í miklu ósamræmi hjá dómurum. Á svona mótum er oft mikið í húfi og geta smáatriðin skipt sköpum. Leiftur og Sigvaldi áttu fína sýningu en mikið ósamræmi dómara varð til þess að þeir sitja heima þetta landsmótið, eða hvað? Það hefði verið gaman að fá útlistun fjórða og fimmta dómara til að sjá hvar þetta hefði legið. Vonandi voru það samt bestu hestarnir sem fengu farmiða á landsmót í öllum félögum því það er jú það sem allir vilja, fá að sjá bestu hestana!

Þó að Sigvaldi verði ekki með hest í keppnisbrautinni þetta Landsmótið mun hann eiga fjöldann allan af börnum, unglingum og ungmennum í braut. Hann mun leiðbeina krökkum úr þremur hestamannafélögum hér á Vesturlandi fyrir og á móti. Þetta eru krakkarnir úr Faxa, Skugga og Glað. Þarna er hópur af flottum krökkum sem eiga án efa eftir að gera góða hluti á mótinu.


Sjáumst á Landsmótinu!


Engar fréttir = Góðar fréttir

8/5/2012

 
Picture
Gaumssonur
Nóg er af fréttum þó svo fréttaveitan hafi ekki verið að standa sig síðustu vikurnar. Fullt um að vera á Staðarhúsum hjá Sigvalda, Lindu og Freyju. Freyja er í verknámi hjá Sigvalda en hún er að klára 2. árið á Hólum núna í vor.
    Framundan eru m.a. kynbótasýningar með þau hross sem verða tilbúin til dóms. Íþróttamót Skugga er næstu helgi sem sennilega verður mætt á og svo styttist óðfluga í úrtöku og Landsmótið nálgast hratt. Nú, Sigvaldi stefnir ekki með mikið á Landsmót en hann stefnir á að ná tíma með Sóldögg í 100 metrana og jafnvel eitthvað í kynbótadóm ef allt gengur upp núna í vor.  Svo hefur hann einnig verið að kenna krökkunum í Skugga í vetur sem stefna á úrtöku fyrir Landsmót og sennilega mun hann svo fylgja þeim krökkum eftir sem komast áfram.

Sigvaldi fór með Sóldögg á Reykjavíkurmeistaramótið síðustu helgi. Kepptu þar í 100m fljúgandi skeiði og gekk það ágætlega. Þau lágu báða sína spretti og var sá betri á 8.35 sek. og skilaði þeim 7. sætinu. Fyrsta keppnin í ár og ætti hún að eiga nóg inni fyrir komandi tímabil.

Vorboðarnir eru farnir að gera vart við sig, ekki lóan sem er löngu komin heldur folöldin! Fyrsta folaldið mætti síðastliðinn föstudag, fagur-jarpur og stór-stjörnóttur foli undan Gaum frá Auðsholtshjáleigu og Þrumu frá Skógskoti. Þetta er fyrsta afkvæmi Þrumu en hún er meri með fyrstuverðlauna úr ræktun Sigvalda og fjölskyldu.

Næstu daga er stefnt á að koma inn eitthverjum myndum en yfirleitt eru þær miklu skemmtilegri en svona mas og þras. Fylgist með....

<<Previous
Forward>>
    Picture
    Picture
    Bella
    Picture

Powered by Create your own unique website with customizable templates.