![]() Linda Rún og Sigvaldi Hún var þétt setin Faxaborgin síðastliðinn laugardag þegar vestlenskir knapar og hestar riðu frammi fyrir áhorfendum. Fjölbreytt og skemmtileg atriði voru á boðstólum sem flest ef ekki öll fönguðu athygli gesta, ýmist með glæsilegum hestum, góðri reiðmennsku eða léttu gríni. Víða heyrist gott umtal af sýningunni og að bæði knapar og gestir séu ánægðir með kvöldið. Eftirtektarvert er hversu vel var að flestu staðið af sýningarhöldurum. Lengi má samt gott bæta og ekki við öðru að búast en að ári liðnu verður tekið til kostanna á ný. Sigvaldi mætti með þrjú hross eins og sagt hefur verið frá og gekk það príðilega. Helst frá því að segja að öll voru þau lögð á skeið, Gló með einn af sínum fyrstu sprettum, Þrándur lá betur en oft áður en kvöldið átti sú bleika, Sóldögg frá Skógskoti, sem "svínlá" í gegnum höllina eins og henni er lagið. Sérlega skemmtilegt er að þessi þrjú hross eru öll undan sömu merinni og tvö þeirra alsystkini undan Glampa frá Vatnsleysu. Móðir þeirra er Hula frá Hamraendum sem er undan höfðingjanum Baldri frá Bakka. ![]() Næstkomandi laugardag verður haldin í annað sinn Vesturlandssýning í reiðhöllinni í Borgarnesi. Þetta er sameiginlegt framtak hestamannafélaga á Vesturlandi ásamt Hrossaræktarsambandi Vesturlands og stefnir í þræl skemmtilega sýningu. Á sýningunni verða fjölmörg atriði, m.a. kynbótahross, gæðingar í A og B flokki, atriði frá Félagi tamningamanna, Menntaskóla Borgarfjarðar ásamt vestlenskum glæsikonum. Einnig verða ræktunarbú hér frá Vesturlandi að sýna sinn afrakstur og nokkrir vekringar láta hvína í gegnum höllina. Það verður því fjölmargt að sjá og eflaust verður allt vaðandi í gæðingum. Sigvaldi ætlar að dusta rykið af Sóldögg og athuga hvort hún kunni enn til sinna verka í skeiðinu. Sigvaldi og Linda Rún verða með atrið ásamt því mætir Sigvaldi með Gló frá Skógskoti í 5 vetra flokk mera. Sýningin hefst stundvíslega klukkan 20:00 á laugardeginum. Uppselt var á sýninguna í fyrra því er um að gera tryggja sér miða tímanlega. Forsala aðgönumiða er hafin og má sjá upplýsingar um það hér.
Það er í nógu að snúast þessa dagana. Húsið er fullt af efnilegum og skemmtilegum hrossum sem koma manni í gegnum daginn. Meirihluti hrossanna eru ungar merar og eru þrjár þeirra úr okkar ræktun sem að sjálfsögðu eru bundnar væntingar við en svo er bara að bíða og sjá hvað verður. Sparta frá Skógskoti er 3ja vetra efnileg meri undan Þorra frá Þúfu. Hún er í eigu Sindra Hrafns, bróður Sigvalda. Sindri (16 ára) er ekki djúpt sokkinn hestamaður líkt og bræður sínir heldur er hann efnilegur frjálsíþróttamaður sem er nú þegar búinn að marka spor sín bæði með Íslandsmetum og keppnum erlendis fyrir hönd Íslands. Þó svo hestamennskan fái engan tíma hjá honum lengur bindur hann miklar vonir við merina sína og vonar að hún skili sér til dóms í vor. Sparta er alhliðageng meri sem kemur vel af stað í tamningu. Hún er skapmikil en samt tilbúin að vinna fyrir sínu. Hún er mjúk, þjál, viljug og skemmtileg. Vonandi mun ganga vel í vetur svo hægt sé að fylla upp í væntingar eigandans. Þrátt fyrir pressu verða dagarnir að hafa sinn gang. Framundan er mikið að gera bæði í tamningum og kennslu.
|