Sigvaldi Lárus
Sigvaldi Lárus
  • Forsíða
  • Tamningar og þjálfun
  • Reiðkennsla
  • Sigvaldi Lárus
  • Söluhross
  • Myndir
  • Hafa samband

Skemmtileg sýning að baki!

26/3/2012

 
Picture
Linda Rún og Sigvaldi
Hún var þétt setin Faxaborgin síðastliðinn laugardag þegar vestlenskir knapar og hestar riðu frammi fyrir áhorfendum. Fjölbreytt og skemmtileg atriði voru á boðstólum sem flest ef ekki öll fönguðu athygli gesta, ýmist með glæsilegum hestum, góðri reiðmennsku eða léttu gríni. Víða heyrist gott umtal af sýningunni og að bæði knapar og gestir séu ánægðir með kvöldið. Eftirtektarvert er hversu vel var að flestu staðið af sýningarhöldurum. Lengi má samt gott bæta og ekki við öðru að búast en að ári liðnu verður tekið til kostanna á ný.

Sigvaldi mætti með þrjú hross eins og sagt hefur verið frá og gekk það príðilega. Helst frá því að segja að öll voru þau lögð á skeið, Gló með einn af sínum fyrstu sprettum, Þrándur lá betur en oft áður en kvöldið átti sú bleika, Sóldögg frá Skógskoti, sem "svínlá" í gegnum höllina eins og henni er lagið. Sérlega skemmtilegt er að þessi þrjú hross eru öll undan sömu merinni og tvö þeirra alsystkini undan Glampa frá Vatnsleysu. Móðir þeirra er Hula frá Hamraendum sem er undan höfðingjanum Baldri frá Bakka.


Vesturlandssýning í Faxaborg

19/3/2012

 
Picture
Næstkomandi laugardag verður haldin í annað sinn Vesturlandssýning í reiðhöllinni í Borgarnesi. Þetta er sameiginlegt framtak hestamannafélaga á Vesturlandi ásamt Hrossaræktarsambandi Vesturlands og stefnir í þræl skemmtilega sýningu.

Á sýningunni verða fjölmörg atriði, m.a. kynbótahross, gæðingar í A og B flokki, atriði frá Félagi tamningamanna, Menntaskóla Borgarfjarðar ásamt vestlenskum glæsikonum. Einnig verða  ræktunarbú hér frá Vesturlandi að sýna sinn afrakstur og nokkrir vekringar láta hvína í gegnum höllina. Það verður því fjölmargt að sjá og eflaust verður allt vaðandi í gæðingum.

Sigvaldi ætlar að dusta rykið af  Sóldögg og athuga hvort hún kunni enn til sinna verka í skeiðinu.  Sigvaldi og Linda Rún verða með atrið ásamt því mætir Sigvaldi með  Gló frá Skógskoti í 5 vetra flokk mera.

Sýningin hefst stundvíslega klukkan 20:00 á laugardeginum. Uppselt var á sýninguna í fyrra því er um að gera tryggja sér miða tímanlega. Forsala aðgönumiða er hafin og má sjá upplýsingar um það hér.

Fræðslufundur Glaðs

17/3/2012

 

 

Picture
Í kvöld ætlar Sigvaldi að mæta galvaskur í Dalina og vera með fræðslufund fyrir sveitunga. Á fundinum ætlar Sigvaldi að fjalla um hestamenskuna, nálgun hestsins og leiðina að því að fá hestinn sáttan og vinnufúsan. Hvernig byggjum við upp hestinn okkar til að fá hann til að beita sér sem réttast og hvernig við fáum hann til að vilja framkvæma verkefnin með okkur, hvort sem það er til reiðar eða sýninga.

Fundurinn verður haldinn í Leifsbúð í kvöld, laugardaginn 17. mars klukkan 20:00.

Hlökkum til að sjá sem flesta sem vilja bæta í fræðslubankann sinn.

Með hækkandi sólu

8/3/2012

 
Picture
Glóra frá Skógskoti
Picture
Villi frá Gillastöðum
______________________
Tvær myndir sem teknar
voru í rökkrinu á dögunum
Á Staðarhúsum gengur allt sinn vana gang. Sigvaldi og Linda stunda tamningarnar stíft enda nálgast vorið óðfluga með hækkandi sólu. Guðmundur hirðir um hrossin og gætir að andlegu hlið bæði hrossa og manna sem þýðir bara það að hér er allt eins og það á sér að vera. Veðurfarið hefur verið ásættanlegt og færið gott milli hríða en þá kemur reihöllin sér vel.

Framundan hér í Borgarfirði er ýmislegt. Næsta KB mótaröð verður 18. mars þar sem keppt verður í 5 gangi. Helgina eftir eða 24. mars verður svo Vesturlandsýningin í Faxaborg í Borgarnesi en endurtaka á leikinn frá því í fyrra eftir vel lukkaða sýningu.

Framundan hjá Sigvalda er vikuleg kennsla í Borgarnesi með krakka úr Hestamannafélaginu Skugga en einnig kennir hann krökkum úr Menntaskóla Borgarfjarðar sem stefna á þátttöku í Framhaldskólamótinu sem verður haldið núna í lok mars.
Svo er fyrirhugað námskeið í reiðhöllinni í Búðardal helgina 17.-18. mars og einnig verður haldinn fræðslufundur með léttu spjalli að kvöldi 17. í Leifsbúð.  Meira um það má sjá hér!


Sparta frá Skógskoti

12/2/2012

 
Það er í nógu að snúast þessa dagana. Húsið er fullt af efnilegum og skemmtilegum hrossum sem koma manni í gegnum daginn. Meirihluti hrossanna eru ungar merar og eru þrjár þeirra úr okkar ræktun sem að sjálfsögðu eru bundnar væntingar við en svo er bara að bíða og sjá hvað verður.

Sparta frá Skógskoti er 3ja vetra efnileg meri undan Þorra frá Þúfu. Hún er í eigu Sindra Hrafns, bróður Sigvalda. Sindri (16 ára) er ekki djúpt sokkinn hestamaður líkt og bræður sínir heldur er hann efnilegur frjálsíþróttamaður sem er nú þegar búinn að marka  spor sín bæði með Íslandsmetum og keppnum erlendis fyrir hönd Íslands. Þó svo hestamennskan fái engan tíma hjá honum lengur bindur hann miklar vonir við merina sína og vonar að hún skili sér til dóms í vor. Sparta er alhliðageng meri sem kemur vel af stað í tamningu. Hún er skapmikil en samt tilbúin að vinna fyrir sínu. Hún er mjúk, þjál, viljug og skemmtileg. Vonandi mun ganga vel í vetur svo hægt sé að fylla upp í væntingar eigandans.

Þrátt fyrir pressu verða dagarnir að hafa sinn gang. Framundan er mikið að gera bæði í tamningum og kennslu.

KB-mótaröðin

4/2/2012

 
Picture
Sigvaldi og Breiðfjörð
Nú er komið að fyrsta móti vetrarins. Fjórgangur KB-mótaraðarinnar verður núna í dag og ætlar Sigvaldi að mæta með Breiðfjörð. Met skráning er á mótið eða vel yfir 80 skráningar þar sem keppt er í öllum flokkum.
Það er vonandi skemmtileg keppni framundan og nóg af flottum hestum. Svo eru þeir Faxa- og Skuggamenn ferlega almennilegir því frítt verður inn í höllina. Nú verða allir sem geta að kíkja við, keppnin byrjar klukkan 12:00 og verður fram eftir degi.  Sjáumst.

Meira um keppnina hér.

Fjölmenni á opnu húsi!

16/1/2012

 
Picture
Sigvaldi og Smyrill frá Hamraendum
Picture
Guðmar Þór og Breiðfjörð frá Búðardal
Picture
Áhugasamir áhorfendur
Það voru margir sem gerðu sér glaðan dag og kíktu við á Staðarhúsum núna á laugardaginn og þáðu þar bæði veitingar og fróðleik. Það var gaman hvað margir sáu sér fært að koma og létu ekki leiðindar færð og veður á sig fá sem hafði hrjáð landan dagana þar á undan ef ekki vikur.
Það var Linda Rún sem reið á vaðið með fróðleik kvöldsins en hún fjallaði  um þær aðferðir, eða verkfæri eins og hún talaði um, sem hún notast við við tamningar á ungum hrossum og lagði áherslu á mikilvægi leiðtogahlutverksins í vinnu okkar með hestinum. Sigvaldi tók við og fjallaði um aðferðir til að auka mýkt og jafnvægi og fá hestinn til að vilja vinna með okkur, að það skili bæði árangri og skemmtilegri vinnu.

Að því loknu gæddu gestir sér á  gómsætri kjötsúpu og svelgdu þorstann þar til Guðmar Þór tók svo til máls. Hann var með afar fróðlegt innlegg þar sem hann fjallaði um hestamennskuna í víðu samhengi með sérlega skemmtilegu sjónarmiði. Eftir það var dagskránni hvergi nærri lokið því við tók skemmtileg stemning fram eftir kvöldi.

Guðmar, Linda Rún og aðrir sem að þessu stóðu eiga hrós skilið fyrir hvernig að öllu var staðið og var virkilega gaman að fá að taka þátt í þessu með þeim.

Nokkrum myndum var smellt af og má sjá þær hér.

Sjáumst á Staðarhúsum á laugardaginn!

11/1/2012

 
Picture
_Tamningastöðin á Staðarhúsum í Borgarfirði
mun standa fyrir opnu húsi laugardaginn
14. janúar kl. 17.00

Guðmar Þór Pétursson, Linda Rún Pétursdóttir og Sigvaldi Lárus Guðmundsson verða með sýnikennslu ásamt því að boðið verður upp á hressingu og skemmtiatriði.

Allir velkomnir.
<<Previous
Forward>>
    Picture
    Picture
    Bella
    Picture

Powered by Create your own unique website with customizable templates.